Orgel verður til

Saga af pípuorgelsmíði í bílskúr í Hveragerði.

Hvað er í orgeli?

Fyrir þá lesendur sem ekki þekkja til innviða í pípuorgelum, skal hér reynt að gefa einfalda mynd af þeim byggingarhlutum sem orgel er gert úr.

Pípuorgel eru jafnan byggð inn í hús eða skáp, sem mikið ber á í þeim húsakynnum þar sem þeim er komið fyrir. Framhlið orgelhússins er oft afar skrautleg, einkum ef um gamalt orgel er að ræða, en ávallt er leitast við að byggja með veglegum hætti, og þannig að eftir verði tekið, utan um orgelið.

Þegar inn í orgelhúsið kemur má segja að orgelið sé saman sett úr fjórum meginþáttum. Í fyrsta lagi eru það pípurnar, gerðar úr málmi eða tré, misstórar og mismargar eftir atvikum. Pípunum er skipað i raddir, og hljómar hver rödd með sínum hætti. Í minni orgelum eru kannski frá fimm upp í fimmtán raddir og oft 61 pípa í hverri rödd, en í stórum orgelum miklu fleiri. Til dæmis eru í Klais-orgelinu í Hallgrímskirkju 72 raddir og 5275 pípur. Í mínu orgeli er aðeins ein rödd og 51 pípa. Þær eru allar gerðar úr MDF-plötum.

Þá er að nefna nótnaborðið, eða nótnaborðin, því að við mörg orgel eru fleiri en eitt nótnaborð, að ógleymdu fótspilinu. Nótnaborðin eru eins og flestir þekkja, þannig að í hverri áttund eru sjö nótur fyrir heiltóna og fimm fyrir hálftóna. Heilnóturnar oftast hvítar og hinar svartar, en frá því eru undantekningar, til dæmis hjá mér. Oft eru fimm áttundir í hverju borði. Í mínu orgeli eru nóturnar jafnmargar og pípurnar, 51 talsins, það er að segja fjórar áttundir og 3 nótur.

Pípurnar hljóma ekki nema í þær sé blásið. Því þarf blástursverk eða loftþjöppu, sem í þarf að vera blásari með hæfilegri afkastagetu og einhver búnaður til að tryggja jafnan loftþrýsting inn í pípurnar. Orgelpípur eru gerðar fyrir tiltekinn þrýsting. Mínar eru til dæmis gerðar fyrir um það bil 4 millibara þrýsting. Þrýstijafnarinn er oft kassi þar sem lokið er úr leðri eða á annan hátt þannig útbúið að rúmmál kassans geti verið breytilegt eftir þrýstingi loftsins í honum.

Fjórði byggingarhlutinn er svo vindhlaðan, lokaður kassi, loftþéttur, sem tengdur er loftþjöppunni með allvíðri pípu eða stokk. Á vindhlöðunni er gat fyrir hverja pípu, og loka fyrir gatinu, tengd viðkomandi nótu í nótnaborðinu. Þegar þrýst er á nótu opnast lokan og hleypir lofti inn á pípuna, sem þá syngur sinn tón. Vindhlaðan tengir þannig saman alla aðra hluta orgelsins.

Þetta er sem sagt afar enföld lýsing á byggingarhlutum orgelsins og tengslum þeirra innbyrðis. Nánar verður farið út í þessa hluti flesta annars staðar á vefsvæðinu eftir því sem tími og andagift höfundar leyfir.

Úr myndasafni

Nokkrar pípur í prófun. Þær eru ferkantaðar, gerðar úr MDF-plötum.

Nokkrar pípur í prófun. Þær eru ferkantaðar, gerðar úr MDF-plötum. Tréþynnurnar framan á þeim eru til að stilla tónhæðina.

Blásari og loka í þrýstijafnara

Blásari til hægri, þrýstijafnari til vinstri. Leðurlok kemur þar ofan á.

Nótnaborð í smíðum.

Nótnaborð í smíðum.

Vindhlaða, opin með götum og einni loku.

Vindhlaða, opin, með götum og málmpinnum til að stýra lokunum. Einni loku hefur verið komið fyrir. Á hana kemur svo loftþétt lok.