Pípugerð
Orgelið mitt er með einni rödd, í henni er 51 pípa og með hliðsjón af skilgreiningu á varapípum og tungupípum hér hægra megin á síðunni sést að um er að ræða varapípur. Fljótlega kom í ljós að við pípugerðina kemur margt til greina.
Algengasta efni í pípum er málmblanda úr blýi og tini. Sá möguleiki kom aldrei alvarlega til greina hjá mér. Þarna í upphafi verksins hafði mér ekki borist fyrir augu sú vitneskja að menn hafa gert orgelpípur úr pappír, annars hefði ég trúlega skoðað þá aðferð. Þá var tréð eftir. Í mörgum orgelum er að minnsta kosti ein rödd með trépípum, og er valinn í þær gæðaviður. Ég byrjaði með mahonílista, 9 mm þykka, sem Valdimar Ingvason hafði gefið mér, og féllu til við smíði hurðakarma. En þær birgðir dugðu skammt, og ég sá ekki fram á að hafa efni á að kaupa vandaðan við í nægu magni til að smíða úr 50 - 60 pípur.
Þá sá ég hjá Phil Radford að nota mætti MDF-plötur sem efni i orgelpípur. MDF (Medium Density Fiber) er tiltölulega ódýrt efni, fæst víða, plöturnar til í ótal þykktum, og efnið verpist ekki eða bólgnar á meðan það er þurrt. Ég ákvað að smíða allar pípur í orgelinu úr MDF. Nú kann einhver að spyrja hvort það sé nógu gott, hvort ekki muni hljóma betur pípa úr réttri málmblöndu eða góðum harðviði? Staðreyndin mun vera, og ég get vísað í greinar því til stuðnings, að erfitt hefur reynst að sýna fram á raunverulegan mun á hljómblæ eftir því hvaða efni væri notað.
Vidd pípu hefur áhrif á hljómblæinn þannig að meira ber á yfirtónum i mjórri pípu en digurri. Stilling munnopsins, það hvernig loftstraumurinn kemur á efri vörina, hefur einnig áhrif á myndun yfirtóna, og fleira kemur til. Tónhæðin ræðst eins og fyrr segir af lengd pípunnar. Töflur finnast á Internetinu þar sem gefin eru öll mál fyrir heilar raddir með tilteknum megineinkennum og þá gjarnan líka sígildu heiti eins og Flauta, Diapason, Bordun. Ég náði í töflur bæði frá Raphi Giangiulio og Johan Liljencrants, Excel-töflur sem breyta mátti til að ná fram einkennum tiltekinna radda, en gengið var út frá að hver pípa væri gerð í sínum skala, engar tvær eins, hvorki að vídd, lengd né efnisþykkt.
Mér sýndist það myndi verða of mikil vinna að gera hverja pípu einstaka. Sá líka hjá fyrrnefndum Phil Radford að gera mátti nothæfar pípur þó að jafnvel heil áttund væri höfð með sömu vídd. Og þannig byrjaði ég. Síðar varð úr að 6 - 7 pípur voru hafðar jafnvíðar og farið eftir meðaltali úr töflunum. Efnisþykktina ákvað ég að hafa einungis í þremur þrepum. Í minnstu 12 pípurnar notaði ég 4 mm MDF, í þær 19 stærstu 9 mm, og 6 mm í allar þar á milli. Einnig ákvað ég að pípurnar skyldu vera með fastri efri vör, það er að segja, pípuveggurinn ofan við munnopið er í einu lagi, límdur fastur þegar fundin hefur verið heppilegasta staða vararinnar fyrir áreynslulausa tónmyndun. Það var fljótlegra að smíða pípur á þennan hátt, en síðar kom í ljós að við röddun hefði oft verið þægilegt að hafa færanlega efri vör.
Allavega gat ég nú reiknað út hvaða breiddir ég þyrfti og fékk skammtinn af 6 mm efninu sagaðan í renninga í Húsasmiðjunni á Selfossi. Ég hafði þá trú að sögin þeirra væri nákvæmari en sú í Byko. Þarna hafði ég ekki enn ákveðið hve margar pípurnar ættu að vera, en þegar komið var upp í d (2349 hz) fannst mér nógu hár orðinn tónninn, og niður komst ég í C (131 hz), en þar fyrir neðan yrðu pípurnar of stórar fyrir þetta dæmi. Neðsta áttundin er reyndar með lokuðum pípum, sem þýðir að þær eru ekki lengri en í áttundinni þar fyrir ofan, bara víðari.
Ég hóf pípusmíðina á miðsviðinu og vann mig smátt og smátt bæði upp og niður. Erfiðast var í byrjun að ná vindrifunni hæfilegri. Ég var að reyna þetta með því að saga og pússa af fyrirstöðunni, en þarna er um brot úr millimetra að ræða, og kostaði margar atrennur þangað til ég þorði að líma neðri vörina fasta. Þegar leið á verkið gafst ég upp á þessu og fór að nota millilegg úr pappa eða pappír. Einnig hætti ég að líma vörina, en festi hana í staðinn með tveimur skrúfum. Þetta gekk miklu betur, og er auðveldara viðureignar eftir á þegar kemur að því að radda hljófærið.
Á opnum pípum er stillirifa á framhliðinni, hulin að hluta með tréþynnu, stillispjaldi. Ég gerði sex pípur með því hefðbundna lagi að líma falslista sitt hvoru megin við rifuna til að renna spjaldinu eftir. Þetta var seinlegt svo að ég fór að hugsa um aðra leið. Datt þá niður á að búa til fjaðrir úr 1 mm stálvír, tvær á hverja pípu, til að halda spjaldinu á sínum stað. Þetta reyndist vel og tekur sig vel út sjónrænt. Fjaðrirnar má sjá á mynd í kaflanum Pípugerð - myndasaga. Fyrir minnstu pípurnar bjó ég til eins konar gjarðir úr þunnu dósablikki (Larsen Kippers, fást í Bónus), sem renna má upp og niður.
Í lokuðu pípurnar bjó ég til tappa úr 20 mm þykku tré, rúnnuðu á köntunum, með handfangi sem nær upp úr pípunum, og leðurpakkningu til að gera loftþétt.
Áður en framhliðin var límd á pípurnar bar ég lakk á þær innanverðar. Einhver sem ég las á Netinu lagði mikla áherslu á að nota pólyúretanlakk. Ég prófaði það, en lyktin er óhafandi nærri íverustöðum fólks, svo að ég notaði Kópal leifturlakk á allt sem lakkað var í orgelinu. Reyndar munu aðdáendur hefðbundinna aðferða nota heitt lím og láta það fljóta um pípurnar innanverðar til þéttingar og styrkingar.