Orgel verður til

Að nota rétt orð.

Tilgangurinn með þessum vef er að lýsa reynslu minni af glímunni við orgelið, bæði fyrir sjálfan mig og aðra. Ætlaði fyrst að hafa hann á ensku því að á þá tungu mæla flestir úti í heimi, sem áhuga kynnu að hafa fyrir þessu efni. En auðvitað verður vefurinn að vera á íslensku líka. Og þá kemur vandamálið: hvað heita hlutirnir á íslensku?.

Á íslensku hefur ekki verið skrifað mikið um pípuorgel, helst er eitthvað slíkt að finna í því ágæta tímariti Organistablaðinu. Af lestri þess mætti í fljótu bragði ætla að íslensk hugtök séu varla til í fagi organista og orgelsmiða, nema þá lítt aðlöguð tökuorð úr öðrum málum, einkum þýsku. Í lýsingum á pípuorgelum landsins, sem birtar eru á baksíðu í því nær hverju tölublaði, er talað um „prospekt, traktúr, registratúr, manúala, koppla, svellverk og kombinationir“.

Fjórar greinar hef ég fundið sem fjalla um gerð orgela á þann hátt að íðorð komi við sögu. Elst er grein Ísólfs Pálssonar í tímaritinu Heimi frá 1925. Eftir Gústaf Jóhannesson er greinaflokkur í Organistablaðinu 1972-3, ítarleg saga orgelsins frá upphafi og fram til miðalda, en boðað framhald hefur ekki verið birt. Í sama riti birtist árið 1985 viðtal við Ketil Sigurjónsson, sem þá var að smíða pípuorel heima hjá sér. 1987 ritar Björgvin Tómasson í sama tímarit grein um pípuorgel og meðferð þeirra. Þessar greinar hef ég orðtekið og borið saman við ensk og þýsk íðorð. Fyrir þau orð sem uppá vantar, eða þau sem mér líkar ekki við, reyni ég að búa til eða finna hliðstæður í íðorðasöfnum annarra starfsgreina. Þessi vefur hefur að markhópi sjálfan mig og aðrar einfaldar sálir, því leyfi ég mér visst frjálsræði gagnvart fræðunum, eins og ég reyndar geri í sjálfri smíðinni.

Komist ég á snoðir um að í almennri notkun séu önnur íslensk orð um þau hugtök sem fyrir koma, mun ég taka þau upp, og eins bið ég alla sem lesa kunna texta mína og vita um slíkt, að leiðrétta við mig það sem betur má fara. Mér þætti reyndar vænt um að fá athugasemdir og ábendingar um hvaðeina er snertir málfarið á þessum pistlum. Tölvupósturinn er: johg hjá centrum.is (Allir vita náttúrlega að fyrir hjá á að setja @, og skella orðunum saman. Póstfangið er birt svona til að harkarar úti í heimi geti ekki fiskað það sjálfvirkt og farið að senda á það ruslpóst).

Hér til hliðar hægra megin er lítill orðalisti með þýskum og samsvarandi enskum orðum ásamt því sem ég hef fundið af íslenskum íðorðum. Merking í hornklofum við íslensku orðin sýnir upprunann: [B]=Björgvin Tómasson, [G] Gústaf Jóhannesson, [Í]=Ísólfur Pálsson, [J]=Jóhann Gunnarsson [K]=Ketill Sigurjónsson.

Orðin bjalla eða undirtak, sem ég nota hér fyrir þann hluta tungupípu, sem á ensku nefnist resonator en á þýsku Schallbecher eru rökstudd svona: Um hið fyrra vísast til blásturshljóðfæra, lúðra, þar sem fremsti hluti pípunnar er nefndur bjalla og mótar tónblæ hljóðfærisins. Svo datt mér í hug nýyrðið undirtak, sem vísar til þess að pípa þessi eða bjalla tekur undir með tungunni eða tónfjöðrinni, magnar tón hennar þannig og mótar.

Orðið sveifluhol er fengið úr kennsluefni fyrir raungreinakennara eftir Ara Ólafsson dósent við Háskóla Íslands, og er skilgreint sem svæði sem bylgja getur ferðast um en speglast af jöðrunum.

.

Orðalisti

Þýska

Enska

Íslenska

Abstrakte tracker togstöng [J]
Aufschnitt cut-up (mouth height) munnop, hæð munnops [J]
Magazinbalg reservoir þrýstijafnari [J]
Manual manual nótnaborð [J], hljómborð [K], tónaröð [Í]
Mensur scaling kvörðun [J]
Pedal pedal fótspil [J], pedal [G,K], fetlaröð [Í]
Pfeifenkörper pipe body sveifluhol [J]
Register stop rödd [J], raddaröð [Í]
Registerzug drawstop raddastilli [Í]
Schallbecher resonator bjalla, undirtak [J]
Ventil pallet loka [J], hljóðloka[Í]
Welle Roller, trundle veltiás [J]
Windlade soundboard, windchest vindhlaða [B,G]
Listinn á eftir að lengjast