Orgel verður til

Saga af pípuorgelsmíði í bílskúr í Hveragerði.

Vindhlaða

Vilji maður líkja einstökum hlutum pípuorgelsins við líffæri þá er vindhlaðan hjartað, miðstöðin sem ljær öllu hinu tilgang og lif. Vindhlaðan er loftþétt kista, nokkuð löng miðað við breidd og dýpt. Inn í hana kemur loft úr blásara og þrýstijafnara undir þrýstingi sem er hæfilegur til þess að láta pípurnar syngja fallega og af mátulegum styrk. Oftast sitja pípurnar (flestar að minnsta kosti) beint ofan á henni, en í mínu orgeli liggja glærar plastslöngur niður úr henni að hverri pípu. Röð af lokum í vindhlöðunni kemur í veg fyrir að loft fari út að pípunum nema þegar nóta er slegin á nótnaborðinu, enda er hver nóta þess tengd einni loku. Sú tenging er gjörólík eftir því hvort um er að ræða venjulega gerð eða þá sem ég valdi.

Venjulega er vindhlaðan talsvert lengri en sem nemur breiddinni á nótnaborðinu, einfaldlega vegna þess að koma þarf fyrir svo og svo mörgum pípum í röð langsum eftir henni, en pípurnar misjafnlega sverar og raðirnar geta verið margar. Þá þarf að koma til kerfi af stöngum, örmum og ásum til að flytja hreyfinguna frá nótnaborðinu þegar nóta er slegin, að réttri loku í vindhlöðunni. Ég tók það upp eftir Matthíasi Wandel að sníða vindhlöðuna eftir nótnaborðinu, koma henni fyrir beint fyrir neðan það, tengja nótur og lokur saman með grönnum vír en lokur og pípur með slöngum. Nú skal greint frá smíði vindhlöðunnar.

Ég byrjaði reyndar á því, í tengslum við frumgerðina sem frá segir í kaflanum sem ég kalla byggingarsögu, að smíða litla vindhlöðu með 7 lokum. Á henni þróaði ég aðferðirnar sem lýst er hér á eftir og þurfti litlu að breyta frá frumgerðinni.

Botninn í vindhlöðunni er límtrésplata, 190x 855 mm og 20 mm þykk, beyki, hilluefni úr Húsasmiðjunni. Lengdin ræðst af nótnaborðinu (702 mm) auk þess sem þarf til að ná enda á milli í orgelrammanum. Breiddin er ráðin af vindhlöðu Matthíasar Wandel, en aukin um 6 sentimetra vegna lengri loka (sjá síðar). Í botninn þarf að bora allmörg göt, nánar tiltekið 154, með mikilli nákvæmni. Ég velti því mikið fyrir mér hvernig ég gæti borað svo nákvæmt. Níðurstaðan varð að búa til mát úr áli jafnbreitt botninum en ríflega áttund að lengd (19 sm), mæla nákvæmlega og merkja hvar göt skyldu koma, vanda sig við að bora þau rétt, og bora svo í gegn um mátið í tréð, eina áttund í einu og færa á milli. Þetta varð töluverð fyrirhöfn en gaf þokkalega nákvæma borun. Mér er samt nær að halda að jafngott hefði verið að merkja fyrir götunum beint á tréð alla leið. Reyndar eru þetta ekki allt göt. Göt koma eingöngu þar sem slöngur eiga að koma niður úr. Hitt eru holur fyrir stýripinna, einn í hvern lokuenda og annan fyrir miðjum hálsi lokunnar. Eins og í nótnaborðinu var notaður 2,5 mm suðuvír í stýripinnana, klipptur niður í hæfilegar lengdir og endinn sem upp snýr sorfinn ávalur. Holurnar voru boraðar 10 mm niður, götin í gegn, fyrst með 2,5 mm bor, síðan í breytilegri vídd, víðast fyrri bassapípur, grennst fyrir þær minnstu. Vissara þótti að láta lokurnar ná um það bil 2 mm út fyrir stærstu götin. Þar sem þær eru 21 mm á breidd gat ég ekki haft stærri göt en 17 mm. Hliðar vindhlöðunnar æur 12 mm krossviði eru límdar utan á botninn og gaflar felldir þar á milli, líka límdir. Hæðin upp að loki er 120 mm. Áður en pinnar voru reknir í botninn var hann pússaður vel og lakkaður eina umferð.

Lokurnar eru úr beyki, 21x 14 mm og 90 mm langar. Á öðrum enda þeirra er sagað úr og myndaður háls, 16 mm langur og 11 mm breiður. Lóðrétt rauf er söguð í hálsinn miðjan og þar í límdur leðurflipi með gati. Neðan á lokuna er límt þunnt filt og þar undir leðurpjatla, sem nær frá hálsi og endar um 9 mm frá aftari enda. Með þessu á lokan að vera bæði þétt og hljóðlaus. Hugmyndin með því að hafa lokurnar lengri en í fyrirmyndinni var upphaflega sú að þjóna mætti tveimur pípum frá sömu nótu. Af slíkum hugmyndum verður ekki að sinni, en lokurnar virka jafnvel eða betur svona langar. Í lokurnar þarf að bora, gat fyrir stýripinna í enda hennar og holu 5 sm frá endanum fyrir fjöður. Við smíði lokanna var bandsögin mikið notuð. Ég bjó til sleða sem renna mátti eftir brautum í bandsagarborðinu og á hann gat ég fest klossa sem auðvelduðu mér það verkefni að gera 51 loku nákvæmlega eins.

Wandel notar flatar stálfjaðrir sem hann festir undir klemmu aftan við lokurnar. Ég vissi ekki hvar ég gæti fengið þannig fjaðrir heppilega stífar, en átti dálitið af stálvír, 1 mm í þvermál. Ég fór að gera tilraunir með að vinda fjaðrir úr honum með hjálp einfalds tækis sem ég sá einhvers staðar á Netinu, og gekk ágætlega. Þetta gerðist reyndar á meðan ég var að smíða frumgerðina sem að ofan getur. Endar fjaðranna eru beygðir í vinkil, og kemur annar í holu í lokunni en hinn í holu uppi á hliðarvegg. Til að fjaðrirnar rási ekki til hliðanna er gerð skora frá holunni 2-3 sm niður eftir hliðinni og fjöðrin felld þar í. Í frumgerðinni hafði ég sagað raufar í lista sem ég skrúfaði á hliðarvegginn til að halda fjöðrunum, en datt svo níður á þetta einfalda ráð að gera skorur beint í vegginn.

Lokið er 12 mm krossviður, það er fellt niður um 6 mm og falsið klætt filti. Það er sagað í tvennt eftir endilöngu og filt límt á báðar brúnir. Rifan á milli höfð þannig að filtið er létt pressað saman, en upp um hana koma togvírarnir úr lokunum upp í nótnaleggina aftanverða. Lokið er fest á með skrúfum og sá hlutinn sem nær er aftan frá séð með handföngum til að auðveldara sé að ná honum frá þegar eitthvað þarf að laga ofan í vindhlöðunni. Vegna þess hve vindhlaðan er löng þótti mér vissara að halda henni saman með snittuðum teini sem gengur í gegn um báðar hliðar nokkurn veginn fyrir miðju með róm skrúfuðum þétt að utanverðu.

Úr myndasafni

Smellið á smámyndirnar til að stækka þær, smellið aftur til að minnka.

Endar nótnaleggja. Líming til að ná réttri breidd sést vel. Hér hefði mátt nýta betur munstur viðarins.

Tveggja mm bil alls staðar Borað fyrir stýripinnum Nótnaborðsbotninn með stýripinnum og götum

1. Álþynnur tryggja 2 mm bil. 2. Borað fyrir stýripinnum. 3. Botnplatan með stýripinnum og filtborðum.

Hjálpartæki við bandsögina. Lakkið að þorna Allar nótur á sínum stað

1. Hjálpartæki við bandsögina. 2. Lakkið að þorna. 3. Allar nótur komnar á sinn stað.