Orgel verður til

Saga af pípuorgelsmíði í bílskúr í Hveragerði.

Draumur varð að veruleika

Á árunum milli 1965 og 70 var ég oft sendur til London á námskeið vegna nýs tölvubúnaðar sem von var á til landsins. Mörg kvöld og helgar notaði ég þá til að fara á tónleika, meðal annars í konunglega hátíðasalnum, Royal festival hall. Eitt sinn hlýddi ég þar á sinfóníu númer fimm fyrir orgel eftir Charles-Marie Widor. Ekki man ég hver flutti, það gæti hafa verið Ralph Downes, en ég var ekki samur maður eftir. Augu mín og eyru opnuðust fyrir stórkostlegum tjáningarmöguleikum þessa hljóðfæris. Ég þrautlas bækling sem til var um orgelið í RFH og keypti bók sem fékkst þar í bóksölunni, „The Organ Today“ eftir Herbert og H. John Norman. Ég sá að það að byggja orgel væri mest trésmíði, og gaman væri nú einhvern tímann að reyna það. Widor 5, 5. þáttur

Af ýmsum ástæðum hefur þetta dregist. Ég átti lengi vel ekki mikið af verkfærum eða trésmíðavélum. Bílskúrinn minn á Seltjarnarnesinu ver ekki heppilegur. Góður smíðaviður er dýr hér á landi, og ég hafði bara fullt annað að gera.

Svo rann upp árið 2007, við hjónin vorum bæði komin á eftirlaun og flutt í parhúsið okkar í Hveragerði, sem er einmitt búið 30 fermetra bílskúr, upphituðum, og innangengt í hann úr íbúðinni. Eftir föður minn hafði ég erft Emco Star trésmíðavél, auk þess sem ég hafði smátt og smátt viðað að mér ýmsu öðru, svo sem lítilli súluborvél og handfræsara. Var ekki þarna kominn vísir að orgelverkstæði?

Á Internetinu er fullt af fróðleik um alla skapaða hluti og auðvitað líka um orgelsmíði. Eftir mikinn lestur og vangaveltur valdi ég leið til að feta við smíðina, en þrjá lærimeistara verð ég að nefna með sérstöku þakklæti. Fyrst er það Englendingurinn Phil Radford, sem smíðar reyndar aðallega lírukassaorgel, en á Youtube sýnir hann hvernig gera má orgelpípur úr MDF-plötum (Medium Density Fiber). Matthias Wandel, Kanadamaður, smíðaði á námsárum sínum lítið orgel, sem ég tók til fyrirmyndar varðandi viss grundavallaratriði. Þriðji maðurinn sem ég á þakkir að gjalda er Bandaríkjamaðurinn Raphi Giangiulio, sem lýsir ítarlega á vefnum frumsmíð sinni, fimm radda orgeli, mikilli listasmíði. Matthias og Raphi eru verkfræðingar, kunnu því að teikna, og báðir höfðu þeir aðgang að vel búnum trésmíðaverkstæðum.

Þar sem ég er laglaus eins og kallað er hef ég þurft að styðjast við hjálpartæki. Snemma í ferlinu fékk ég mér forrit í tölvuna mína, Dirk's Chromatic Instrument Tuner, sem hefur reynst ómetanlegt við að prófa pípur og stilla orgelið.

Má bjóða þér að prufa orgelið?

Mín myndbönd á Youtube

Orgel og orgelsmiður. Samsetningu lokið nema klæðningu vantar.