Orgel verður til

Saga af pípuorgelsmíði í bílskúr í Hveragerði.

Byggingarsaga

Sumarið 2011 fannst mér tíminn upp runninn til að hefja orgelsmíðina, eða að minnsta kosti láta á það reyna hversu langt ég kæmist. Ég hafði um nokkurn tíma legið í vefsíðum og öðrum fróðleik sem ég gat aflað mér, og séð að orgel eru langt í frá öll eins að gerð. Fyrir mig reið á að velja útfærslu sem hentaði minni litlu (nánar tiltekið engri) reynslu, takmörkuðum vélakosti og fremur þröngu vinnuplássi. Ekki mátti kostnaður heldur fara upp úr öllu valdi, allavega ekki á meðan útkoman væri óviss. Ég hef aldrei getað teiknað neitt, og því var allt verkið hannað eftir hendinni. Slík aðferð leiðir óhjákvæmilega til þess að sumar hugmyndir ganga ekki upp, og maður verður að bakka, eitt skref eða fleiri. Ég reyndi eftir megni að útvega ódýrt efni og endurnýta það sem aðrir væru hættir að nota.

Fyrstu skrefin

Valdimar Ingvason, útskurðarmeistarinn minn, hafði gefið mér mahonírenninga, afsögun úr hurðakörmum, 9 x 50 mm að ummáli. Úr þessu gerði ég fyrstu pípuna, en ljóst var að efnið dygði ekki nema í örfáar pípur. Þá rakst ég á myndbönd frá Bretanum Phil Radford, þar sem hann er að smíða orgelpípur úr MDF-plötum. MDF (medium density fiber) fæst í plötum í mörgum þykktum, er viðráðanlegt að vinna úr, og er á tiltölulega hagstæðu verði. Ég sá strax að þetta gæti verið lausnin fyrir mig því að kap á mahoní eða öðrum góðviði í pípurnar yrðu of dýr. Allar mínar pípur mínu eru úr MDF.

Fljótlega kom í ljós þegar ég fór að smíða og prófa pípur að þeim var illa við munnvatn. Ég bjó mér því til einfaldan físibelg sem ég gat tengt pípurnar við og blásið með nokkurn veginn jöfnum þrýstingi. Efnið var að mestu krossviður úr Góða hirðinum og gervileður úr Álnavörubúðinni hér í Hveragerði.

Góði hriðirinn reyndist mér vel. Í upphafi verksins náði ég þar í allstórt og traust IKEA vinnuborð úr beyki og greiddi 3000 krónur fyrir. Í næstu ferð þangað fékk ég borðplötu úr beyki, hringlaga, 90 sm í þvermál og 4 sm þykka, límtré. SG hús á Selfossi tóku mér vel þegar ég kom þangað að snikja afganga, gáfu mér krossviðarplötur og langan dyrastaf úr mahoní, sem hafði lengi legið í rusli. Parketverksmiðjan í Reykjavík gaf mér dálítið af 10 mm paketplötum og seldi mér síðar meira. Ég vissi að ég mundi þurfa leður, og í ferð til Tyrklands haustið 2011 áskotnaðist mér vænt knippi af fataleðurbútum að gjöf. Húsgagnaleður sem okkur hafði áskotnast úr búi Þorkels tengdaföður míns kom sér einnig vel.

Borðstofuborð úr eik, gamalt nokkuð, hafði verið í eigu fjölskyldunnar síðan við bjuggum í Frakklandi á árunum í kring um 1980. Nú var svo komið að enginn kærði sig lengur um borðið. Platan var tomma á þykkt, um það bil metri í þvermál, hringlaga, og það stóð á renndum löppum með fræstum raufum í eftir endilöngu. Ég ákvað að nota sem mest af borðinu í orgelið. Úr búi elstu dóttur minnar kom viður sem nokkuð ber á í orgelinu. „Svörtu“ nóturnar eru gerðar úr brúnum harðviðarplankabút sem fannst í nýju húsi hennar á Seltjarnarnesi og á nokkrum stöðum glittir í eikarlímtré sem sagaðist úr borðplötu hjá henni þegar koma þurfti fyrir eldavélarhelluborði.

Álitamál í hönnun

Eins og að framan sagði varði ég löngum stundum við lestur vefsíðna um smíði og hönnun orgela áður en ég tók ákvörðun um meginatriðin í gerð orgelsins, og lagði áherslu á að finna leiðir sem ég réði við að útfæra. Í flestum orgelum sitja pípurnar ofan á vindhlöðunni, en nótnaboðið er tengt við hana með nokkuð flóknu kerfi veltiása og togstanga. Í sínu orgeli beintengdi Matthias Wandel vindhlöðuna við nótnaborðið en leiddi loftið frá henni út í pípurnar um plastslöngur. Ég valdi að herma eftir honum, enda yrði sú lausn verulega einfaldari, auk þess sem ég hefði þá fullt frelsi til að raða pípunum eftir smekk síðar í ferlinu. Gerð nótnaborðsins tók ég hins vegar mestalla að láni frá Raphi Giangiulio.

Gerð orgelpípunnar hefur verið þrautrannsökuð og byggist á vönduðum vísindum. Lögmál hennar eru útskýrð á mörgum vefsíðum, meðal annars hafa Johan Liljencrants og Raphi Giangiulio skrifað ítarlegar greinar og birt töflur um öll mál sem við sögu koma. En svo hafa aðrir, til dæmis Phil Radford, sýnt fram á að viðunandi árangri má ná þó að vísindin séu túlkuð nokkuð frjálslega. Mér fannst það verða of mikil fyrirhöfn að kvarða hverja einustu pípu eftir vídd og efnisþykkt. Hugleiddi fyrst að gera hverja áttund í sama kvarða, en úr varð að halda sömu kvörðun á fimm til sex samliggjandi pípum. Ég breytti kvörðunartöflu Johans Liljenkrants í samræmi við þetta. Snemma ákvað ég að hafa ekki nema eina rödd í hljóðfærinu, en pípufjöldinn réðst á endanum af þvi hvað ég treysti mér til að gera í mínu þrönga rými. Þær urðu á endanum 51, með tíðni frá c(131 hz) til d''' (2349 hz). Í dýpstu áttundinni eru pípurnar lokaðar, og fyrir bragðið helmingi styttri en ef þær væru opnar.

Prófanir og frumgerð

Lengi vel gerði ég mér enga grein fyrir því hvernig orgelið ætti að líta út. Þegar pípufjöldinn lá fyrir var þar með ákveðin stærð nótnaborðs og vindhlöðu. Blásarakassinn varð eins og að neðan greinir heldur stærri en upphaflega var áætlað, og hann réði miklu um endanlegt flatarmál. En gæti ég nú smíðað skikkanlega útlítandi nótnaborð? eða nægilega þétta vindhlöðu? Mér þótti vissara að ganga úr skugga um þetta með því að smíða litla frumgerð, vindhlöðu með 7 lokum og nótnaborð með 10 nótum. Frumgerðin var tilbúin seinni part janúar 2012 ásamt nógu mörgum pípum til að prófa með. Í ljós kom að vindhlaðan mundi geta gengið, en finna þyrfti betri aðferð við smíði nótnaborðsins svo það yrði boðlegt. Líklega var það svo 17. febrúar sem ég tengdi 7 pípur inn á frumgerðina og lét þær syngja. Upp frá þeim degi vissi ég að verkefnið myndi ganga upp.

Áfangar í smíði

Að aflokinni prófun frumgerðarinnar um miðjan janúar 2012 hélt ég áfram að smíða pípur og var kominn með þær allar í marslok. Þá tók ég til við nótnaborðið. Fyrst varð þá fyrir að endurbæta aðferðina svo að útkoman yrði betri en í frumgerðinni, og eins varð ég nú að taka ákvörðun um vissa hluti varðandi útlit og byggingu burðargrindar. Ég kann ekkert að teikna, en neyddist til að gera nokkrar skissur í réttum mælikvarða, sem dugðu til þess að einstakir byggingarhlutar féllu þokkalega saman þegar á reyndi. Ég smíðaði grind úr furu, því ég átti alveg eins von á að þurfa að breyta henni síðar. Sem varð raunin, grind 2 var gerð úr eik þegar þar að kom. Smíði nótnaborðsins tók um það bil 2 mánuði, apríl og maí. Ég smíðaði nótnaboðið að mestu eftir teikningu frá Raphi Giangiulio. Efnið í nótnaleggjunum er fura, platan ofan á „hvítu“ nótunum er beyki, viðurinn í „svörtu“ nótunum er óþekktur brúnn harðviður. Leggirnir eru boraðir fyrir þrjár stýringar, járnpinna framan- og aftantil, en gardínugorm fyrir löm í miðju.

Samhliða þessu gekk ég frá bríkum sitt hvoru megin og lista framan við nótnaborðið. Sú hugmynd hafði kviknað að halla vindhlöðunni um það bil 30° til að auðvelda aðgengi að loftslöngum undir botni hennar. Þetta fannst mér vissara að prófa og kom því litlu vindhlöðunni úr frumgerðinni fyrir á réttum stað í orgelgrindinni. Tengdi svo saman nótur og lokur, leiddi slöngur í nokkrar pípur og prófaði. Hugmyndin reyndist ganga upp.

Vindhlaðan var næsta verkefni og tók fram yfir miðjan ágúst að ljúka. Fyrirmyndin er frá Matthíasi Wandel, nær óbreytt teikning af orgelvef hans. Mínar lokur eru aðeins lengri en hjá honum, hugmyndin var að þá gæti ég haft tvær slöngur, og þar með tvær pípur, undir hverri þeirra. Úr því verður ekki. Vindhlaðan er sem sagt lokaður kassi, 22 sm á breidd og 12 sm á hæð að utanmáli, jafnlangur nótnaborðinu. Á botni hennar eru göt fyrir loftslöngur, 51 talsins, misvíð eftir þvi hve stórri pípu á að þjóna. Inni í kassanum eru lokur ofan á götunum, tryggðar með stýripinnum og stálfjöðrum, en upp um lokið, sem er í tvennu lagi með filti í mjórri rifu á milli lokhlutanna, koma vírspottar, 0,54 mm í þvermál, og tengjast nótnaleggjunum. Þegar nótu er þrýst niður opnast sem sagt loka í vindhlöðunni og hleypir lofti inn að tiltekinni pípu, sem þá kveður sinn tón þangað til nótunni er sleppt. Á annarri hlið vindhlöðunnar er inntaksgat fyrir loft frá þrýstijafnara, sem tryggir að þrýstingur í vindhlöðunni sé um það bil 4 hektópaskölum (= millibörum) meiri en utan við hana.

Samsetning

Þegar hér var komið sögu var búið að tvöfalda hljóðeinangrun utan um blásarann og ganga frá þrýstijafnara við enda hans. Þá kom í ljós að furugrindin var of þröng svo smíða þurfti nýja. Nú var ég orðinn svo bjartsýnn á farsæl verklok að ekki kom annað til greina en eik í burðarvirkið. Platan af franska stofuborðinu var söguð niður og hefluð. Reyndist hún drjúg en dugði ekki alveg. Grindin er eiginlega í tvennu lagi, annarsvegar neðri hlutinn upp fyrir nótnaborð og hinsvegar það sem kalla má píputurn þar fyrir ofan. Ég var búinn að smíða píputurn úr mjúkum viði sem ég átti til þegar mér varð ljós stór ágalli á hönnuninni. Með föstum turni yrði engin leið að komast að vindhlöðu eða togvírunum milli hennar og nótnanna nema taka burtu svo og svo margar pípur. Eitthvað varð að gera, og sú frábæra hugmynd vaknaði að hafa turngrindina á hjörum og halla henni aftur um 45 gráður ef komast þyrfti að vindhlöðu, vírum eða slöngum inni í orgelinu. Nú, nýr turn kostaði meiri eik. Farið var í Húsasmiðjuna og keyptir 7 metrar af 1x6 óheflaðri eik, sem ég sagaði og heflaði úti á bletti hjá mér einn góðviðrisdaginn.

Um mánaðamótin sept-okt var búið að smíða nýjan turn, á hjörum, koma vindhlöðunni á sinn stað og tengja lokur við nótur. Ég fór nokkrar umferðir með grammamæli sem ég á frá IBM-dögum mínum til að tryggja eftir föngum að þungi allra nótna væri sem jafnastur. Næsta verkefni var að koma öllum pípum fyrir og tengja þær vindhlöðunni með hæfilega víðum plastslöngum. Þarna þurfti líka að ákveða hvaða pípur skyldu vera sýnilegar og hvernig þeim skyldi raðað saman. Þjóðverjarnir kalla þetta Prospekt. Að fá mátulegar slöngur reyndist stundum erfitt. Ég keypti slöngur dálítið eftir hendinni, en oft kom fyrir að byggingavöruverslanirnar áttu ekki sömu gerð þegar maður kom næst.

Í nóvemberbyrjun 2012 gekkst Listvinafélag Hveragerðis fyrir því að lista- og handverksfólk hafði opið hús eina helgi og sýndi verk sín. Ég var þá búinn að tengja allar pípurnar og sýndi orgelið 27 gestum. Nágranni minn, 10 ára, lék sónötubrot sem hljómaði undur vel í mínum eyrum.

Þá var klæðningin, orgelhúsið, eftir. Ýmsar hugmyndir höfðu verið á lofti og þróuðust í meðförum. Ákveðið var að nota 4 mm birkikrossvið, spónlagðan með eik og smíða ramma utan um hvern fleka úr 10x30 mm eikarlistum úr Bauhaus, sem fals væri tekið í fyrir krossviðnum og innkanturinn fræstur ávalur. Spónlagning var pöntuð hjá SG húsum. Afgreiðsla dróst nokkuð, og fræsing munsturs reyndist vandasöm við mínar frumstæðu aðstæður. Svo eyddi ég nokkrum tíma í að skera út akantuslauf og rósir til skrauts, en fimmta mars 2013 var samsetningu lokið þó flestir flekarnir væru enn ólakkaðir.

Blásari

Mig vantaði hentugan rafmagnsblásara því mér þótti of flókið að smíða fótstiginn blástursbúnað. Engan notaðan blásara rak á fjörur mínar. Tilboð sem ég fékk frá fyrirtækinu Laukhuff í Þýskalandi í Ventola 6 121 50, vinsælan blásara fyrir lítil orgel, þótti mér of dýrt, svo að ég bað blikksmiðjuna Hagblikk að panta fyrir mig tromlublásara frá Ostberg, RFE 160C, sem hafði svipaðar kennitölur. Hann kom og kostaði tæp 40 þúsund, var gefinn upp fyrir 5 hektópaskala þrýsting, og þurfti greinilega talsverða hljóðeinangrun, því hvinur var nokkuð mikill af honum. Í ljós kom að tommuþykk steinull innan í 16 mm þykkum MDF-kassa var ekki nóg. Þá var annar kassi gerður þar utan um, önnur tomma af steinull og 21 mm þykk klæðning. Niðurstaðan var ekki fullkomin, en meðvituð ákvörðun tekin um að láta þar við sitja. Í öðrum enda blásarakassans er þrýstijafnari, sem ég lýsi betur á öðrum stað, en gefur nokkuð jafnan þrýsting í vindhlöðuna, nálægt fjórum hektópaskölum. Tilraun sem ég gerði til að stjórna þrýstingnum með breytilegri spennu gaf ekki nógu góða raun.

Einfölduð teikning - orgel af venjulegri gerð

Orgel af venjulegri gerð - einfölduð mynd.

1 = nótnaborð; 2 = raddastilli; 3 = blásari; 4 = loftloka; 5 = þrýstijafnari; 6 = loftstokkur; 7 = vindhlaða; 8 = togstangir og veltiásar. Copyright Advameg, Inc.

Úr myndasafni

Smellið á smámyndirnar til að stækka þær, smellið aftur til að minnka.

Fyrstu pípurnar sem ég smíðaði. Engin þeirra var notuð í orgelið.

Físibelgurinn, notaður við prófun á pípum áður en rafmagnsblásarinn kom til sögunnar.

Borðplatan úr Góða hirðinum gaf af sér allt beyki sem ég þurfti og meira til.

Tyrkneska leðrið.

Húsgagnaleður, notað meðal annars í þrýstijafnarann.

Frumgerðin, 10 nótur og 7 lokur í vindhlöðunni. Af henni mátti margt læra.

Blásarinn til hægri, þrýstijafnari til vinstri.

Nótnaborðið í smíðum

Nótnaborðið í smíðum. Takið eftir stýripinnum og gardínugormi.

Teikning - nótnaborð

Ein af frumstæðum teikningum mínum, nótnaborð og vinstri brík.

Lokur, fjaðrir og grammavog Fjaðrir og lokur komnar á sinn stað

Vindhlaða í smíðum. 1. Lokur, fjaðrir og grammavog. 2. Fjaðrir og lokur komnar á sinn stað.

Loftinntak í vindhlöðu

Loftkerfi. 1. Inntak í vindhlöðu. 2. Leiðslur úr vindhlöðu.

Blásarakassinn tvöfaldaður, kominn í nýja eikargrind. Fundinn góður staður fyrir fæturna af franska borðinu.

Efri grindin. 1. Turninn sem varð að henda. 2. Nýr turn sem halla má aftur um 45 gráður.

„Prospektið“

Raufar fræstar í krossvið Kantlistar felldir saman

Smíði orgelhúss. 1. Raufar fræstar í krossvið. 2. Kantlistar felldir saman.

Klæðning á hliðar

Klæðning á hliðar tilbúin.