Orgel verður til

Saga af pípuorgelsmíði í bílskúr í Hveragerði.

Nótnaborð

Þeir Giangiulio og Wandel lýsa báðir nótnaborðasmíði sinni býsna nákvæmlega. Mér leist betur á aðferð Giangiulios þó ég treysti mér ekki til að fara alveg að hans ráðum. Hann birtir á vef sínum málsetta teikningu af hinum sýnilega hluta nótnanna, eina áttund, sem mér fannst upplagt að nota, þó að nákvæmniskröfur í trésmíði upp á hundraðasta part úr millimetra yllu mér að vísu nokkru hugarangri í fyrstu. En ég hafði af tómri tækjadellu keypt skíðmál með stafrænni skífu fyrir nokkrum árum. Nú varð það allt í einu mitt mikilvægasta smíðatól. Annað gerði ég um þetta leyti til að bæta nákvæmni í smíðum mínum. Ég keypti teikniblýant með 0,5 mm blýi og æfði mig að strika á tré þar til ég var hættur að brjóta blýið í hvert skipti.

Þarna eru hálfnóturnar 10,5 mm á breidd og 80 mm langar, heilnóturnar ná 45 mm lengra fram og eru 21,43 mm á breidd að framan. Breidd heilnótnaleggjanna er ekki alls staðar eins. F og H eru 11,11 mm, C og E eru 12,64 mm, G og A eru 13 mm, D er 14,01 mm. Á milli nótna eru allstaðar 2 mm bil. Lengd nótnaleggjanna kom ekki fram á teikningunni. Ég las einhvers staðar að hæfileg hreyfing á nótu þegar hún er slegin sé um það bil 10 mm. Mér sýndist að með því að hafa lengdina um 20 sm hvorum megin við miðju fengist sú færsla, og lokan í vindhlöðunni myndi þá lyftast samsvarandi. Þannig var lengd heilnótnaleggjanna ákveðin 40 sm. Þegar til kom varð ég að stytta aftari endann um 10 mm af mjög einfaldri ástæðu. Ég fékk leyfi til að bora göt fyrir hjarir á miðja leggina í súluborvél í smíðastofu Grunnskólans. Í henni var 19 sm bil frá súlu út að miðju borkrónunnar, það varð að ráða.

Ég ákvað að nota byggingafuru í leggina, hitti á við sem var ótrúlega mjúkur og laus í sér. Hélt samt áfram með hann, en sé eftir að hafa ekki notað annan við, til dæmis beyki. Til þess að leggirnir bognuðu síður vegna rakabreytinga límdi ég þá saman úr listum sem ég hafði sagað og heflað niður í hálfa breiddina. Þegar búið væri að líma alla leggina, raða þeim saman hlið við hlið og setja búta af 2 mm þykku áli alls staðar á milli átti heildarbreiddin samkvæmt útreikningi að vera 702, 9 mm. Ég var spenntur að sjá hvernig til hefði tekist og létti mjög við að sjá á málbandinu 702 millimetra. Sem gerir skekkjuna tæplega tvo hundruðustu úr millimetra á hverja nótu.

Næst var að líma utan á framenda heilnótnanna til að ná fullri breidd, sem átti að vera 21,43 mm. Líma þurfti þynnur, öðru megin á fjóra, en báðum megin á þrjá leggi í hverri áttund. Þetta var nákvæmnisverk, ekki aðeins að ná breiddinni, heldur þurfti lengd álímdu bútanna að vera nákvæmlega 43 mm á öllum leggjunum. Leggirnir fyrir hálfnóturnar voru einfaldari, allir jafnbreiðir, en 45 mm styttri en hinir. Sem botn undir nótnaborðið var valin 12 mm krossviðarplata, 34x85,5 sm að stærð. Á hana voru límdir tveir 10 mm þykkir listar langsum, annar 19,5 sm frá fremri brún og ávalur að ofan, hinn við aftari brún botnplötunnar. Framan á plötuna var skrúfaður listi með rauf í eftir endilöngu, 12 mm breiðri og 2mm djúpri. Nótnaleggjunum var nú raðað á plötuna með framendana fast upp að nefndum lista og 2 mm álbúta á milli alls staðar þar sem bil átti að vera. Klossar voru festir til hliðar báðum megin og vel pressað saman. Eins voru tveir vænir listar skrúfaðir fastir ofan á nótnaleggina til að halda þeim tryggilega föstum á meðan borað væri í þá. Borað var í gegn um leggina ofan í miðjan hjaralistann, um það bil 10 mm djúpt með 4,2 mm bor, og nærri hvorum enda var borað með 2,5 mm bor fyrir stýripinnum. Stýripinnar voru búnir til úr 2,5 mm suðuvír sem var klipptur niður og rúnnaður í efri endann. Stýripinnagötin í leggjunum voru víkkuð út þar til hreyfing var liðug í þeim, en í miðgatið var settur bútur af gardínugormi og þannig fengin hjarahreyfing.

Nú var komið að því að líma ofan á heilnóturnar. Búnar voru til 2 mm þynnur úr beyki (límtrésborðið úr Góða hirðinum), sagaðar í hæfilegar lengdir, 127 mm, miðað við að þær ættu að standa 2 mm fram af leggjunum. Þynnurnar síðan límdar á og það sem út af stóð fjarlægt með fræsara og bandsög. Hálfnóturnar voru sagaðar úr brúnum harðviði, sem ekki hefur tekist að bera kennsl á. Þær er 80 mm langar, 10,5 á breidd og 12 mm háar ofan á leggnum. Dálítill flái var sagaður á framendann, 10 - 15 gráður. Þeir hlutar nótnanna sem verða sýnilegir fengu 5 umferðir af lakki og líta býsna vel út eftir það. Síðasti þátturinn í gerð nótnanna var að saga rauf í afturendann og líma leðurflipa þar í, með gati til að hengja í vírinn neðan úr vindhlöðunni.

Úr myndasafni

Smellið á smámyndirnar til að stækka þær, smellið aftur til að minnka.

Teikning af nótnaborði - ein áttund

Teikning af nótnaborði. Eigandi © R. Giangiulio

Breiddin stemmir, 702 millimetrar

Breiddin stemmir: 702 mm.

Endar nótnaleggja þar sem líming sést vel

Endar nótnaleggja. Líming til að ná réttri breidd sést vel. Hér hefði mátt nýta betur munstur viðarins.

Tveggja mm bil alls staðar Borað fyrir stýripinnum Nótnaborðsbotninn með stýripinnum og götum

1. Álþynnur tryggja 2 mm bil. 2. Borað fyrir stýripinnum. 3. Botnplatan með stýripinnum og filtborðum.

Hjálpartæki við bandsögina. Lakkið að þorna Allar nótur á sínum stað

1. Hjálpartæki við bandsögina. 2. Lakkið að þorna. 3. Allar nótur komnar á sinn stað.